Erlent

Mega aðeins reykja hreint kannabis á veitingahúsum frá 1. júlí

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Páll Bergmann

Hollenskir kannabisneytendur þurfa að venda sínu kvæði í kross 1. júlí þegar bann við tóbaksreykingum á veitingastöðum tekur gildi þar í landi.

Frá þeim degi verður maríjúana eina laufið sem löglegt er að reykja á stöðunum en tóbakið fer á bannlista. Þetta mun vera lítið fagnaðarefni notenda kannabis sem blanda gjarnan efni sín með tóbaki áður en þau eru reykt. Amsterdam er þekkt fyrir kaffihús þar sem kaupa má og reykja kannabisefni löglega en búast má við búsifjum hjá rekstraraðilum slíkra húsa eftir að þeim verður gert að greiða 300 evrur, jafnvirði um 37.000 króna, í sekt verði gestir þeirra staðnir að reykingum á tóbaki í bland við kannabisefnin.

Gestunum er hins vegar frjálst að reykja kannabisefnin hrein og óblönduð á kaffihúsunum en rekstraraðilar telja það ekki gróðavænlegt þar sem stór hluti neytendanna muni nú uppfylla þarfir sínar annars staðar. 720 veitingahús í Hollandi hafa leyfi til sölu kannabisefna og velta þau viðskipti um 150 milljörðum króna ár hvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×