Viðskipti innlent

Exista tapar 217 milljörðum á sölunni á Sampo-hlutnum

Exista hefur lokið útboði með áskriftarfyrirkomulagi á öllum hlutum sínum í Sampo, eða 114.257.867 hlutum sem nema 19,98% af heildarhlutafé Sampo.

Hlutirnir voru seldir til fjölda fagfjárfesta á genginu 11,50 evrur á hlut. Exista mun á fjórða ársfjórðungi bókfæra u.þ.b. 1,4 milljarða evra tap vegna sölunnar eða sem nemur um 217 milljörðum kr.

Viðskiptin leiða til þess að skuldir Exista lækka um 1,3 milljarða evra. Eftir viðskiptin á hvorki Exista né dótturfélög þess hluti í Sampo. Citigroup og Morgan Stanley höfðu umsjón með sölunni.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista segir í tilkynningu um málið að sala Exista á eignarhlutnum í Sampo minnki verulega heildarskuldir og greiðir fyrir stýringu félagsins í þeim erfiðu aðstæðum sem nú ríkja á fjármálamörkuðum.

„Engar áætlanir eru um sölu annarra eigna. Við teljum að með þau traustu fyrirtæki sem við eigum verðum við í góðri stöðu þegar því óvenjulega ástandi linnir sem nú ríkir á mörkuðum," segir Lýður.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×