Erlent

Reyna að hamla verstu hliðaráhrifum krabbameinsmeðferða

Breskir krabbameinslæknar gera nú tilraunir og rannsóknir með ný lyf sem gætu komið í veg fyrir sum verstu hliðaráhrif krabbameinsmeðferðar.

Það eru vísindamenn við háskólann í Manchester sem standa fyrir þessum tilraunum. Þeir beita nýrri smásjártegund, svokölluðum Pathway Bio-Imager, sem gerir þeim kleift að skoða hvernig einstakar frumur bregðast við algengum krabbameinslyfjum. Vandinn er að sum krabbameinslyf, eins og til dæmis taxol, geta valdið varanlegum skemmdum á taugaendum með þeim afleiðingum að sjúklingarnir missa tilfinningu í fingrunum.

Með þessu móti hafa vísindamennirnir getað skoðað allt að tíu þúsund frumur af sömu frumulínu á sama tíma og séð nákvæmlega hvernig þær bregðast við hinum margvíslegu lyfjum. Að fenginni þeirri vitneskju að viðbrögð frumanna séu miklu breytilegri en áður var talið, er nú leitað leiða til að nota lyf til að drepa fleiri krabbameinsfrumur en áður hefur verið mögulegt.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×