Erlent

Rússar og Georgíumenn samþykkja friðarsamkomulag

Georgískir hermenn horfa vonandi fram á friðvænlegri tíma.
Georgískir hermenn horfa vonandi fram á friðvænlegri tíma. MYND/AP

Georgíumenn og Rússar hafa komist að samkomulagi um vopnahlé fyrir milligöngu Frakka. Þjóðirnar hafa einnig samþykkt drög að friðarsamkomulagi eftir átök síðustu daga vegna mála Suður-Ossetíu. Samkomulagið er þó enn til umræðu svo ekki liggur fyrir hvað í því felst.

Það var Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sem hafði milligöngu um vopnahléð en hann var á vegum Evrópusambandsins þar sem Frakkar eru í forystu þessi misserin. Sarkozy ræddi bæði við Medvedev Rússlandsforseta og Saakashvili Georgíuforseta í dag og fékk þá til þess að fallast á áætlun í sex liðum. Einhver ágreiningur mun vera um liðina sex en þeir verða einnig bornir undir leiðtoga ESB og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Talið er að eitt hundrað þúsund manns hafi þurft að yfirgefa heimili sín vegna átaka þjóðanna. Þau hófust á fimmtudag þegar Georgíumenn sendu herlið inn í Suður-Ossetíu til að takast á við uppreisnarmenn sem vilja fullt sjálfstæði héraðsins. Rússar svöruðu árásunum af hörku og vísuðu til þess að stór hluti Suður-Osseta væri með rússneskt ríkisfang.

Deilum þjóðanna virðist þó fjarri lokið því fyrr í dag greindu georgísk yfirvöld frá því að þau hefðu höfða mál á hendur Rússum fyrir Alþjóðadómstólnum vegna þjóðernishreinsana á árunum 1993-2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×