Erlent

Sagði Obama vera óamerískan

Hillary og Obama saman á fjáröflunarsamkomu 10. júlí í New York. MYND/AFP
Hillary og Obama saman á fjáröflunarsamkomu 10. júlí í New York. MYND/AFP

Minnisblöð sýna að Mark Penn sem var einn helsti ráðgjafi Hillary Clinton vildi ráðast harkalega að Barack Obama, keppinaut hennar í kosningabaráttunni um útnefninguna sem forsetaefni Demókrataflokksins, og gera að umtalsefni það sem hann kallaði óamerískan bakgrunn Obama.

Penn sagði að Obama gerði mikið úr uppvaxtarárum sínum í Indónesíu og Hawaai og ráðlagði hann Hillary að nýta sér það og benda á að Obama skorti tengsl við Bandaríkin. Skoðanir hans og gildi ættu ekki samleið með hinum venjulega Bandaríkjamanni.

Þetta kemur fram í úttekt The Atlantic magazine sem byggir á minnisblöðum og vefpóstum úr kosningabaráttu Hillary og kennir þar ýmissa grasa. Þar segir meðal annars að ástæðan fyrir því að Hillary tapaði baráttunni var sú að meðal ráðgjafa hennar var hver höndin uppi á móti annarri.

Clinton fór ekki að tillögum Penns sem sagði af sér sem ráðgjafi hennar í byrjun apríl í kjölfar þess að almannatengslafyrirtæki hans aðstoðaði kólumbísku ríkisstjórnina við að vinna að fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Samningi sem Hillary er mótfallin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×