Erlent

Enn barist í Abkasíu

Rússar hafa hætt hernaðaraðgerðum sínum í Georgíu enda telja þeir sig nú hafa náð markmiðum sínum - að tryggja öryggi rússneskra íbúa Suður-Ossetíu og rússneskra friðargæsluliða. Í Abkasíu halda uppreisnarmenn hins vegar áfram að láta sprengjum rigna yfir georgíska hermenn.

Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, tilkynnti um þetta í morgun, um sama leyti og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti kom til Moskvu til friðarumleitan og aðeins fáum mínútum eftir að nýjar fregnir bárust af loftárásum Rússa á borgina Gori í Mið-Georgíu, skammt sunnan við ossetíska höfuðstaðinn Tskhinvali. Þeir gerðu einnig árásir á olíuleiðsluna sem liggur í gegnum Georgíu frá Svartahafi til Miðjarðarhafs en segja að engin olía hafi verið í henni.

Með ákvörðun Rússa í morgun er útlit fyrir að fimm daga stríði sé að ljúka og þeim hörmungum sem stríðið hefur kostað óbreytta borgara víðs vegar um landið.

Fátt bendir hins vegar til að Rússar hafi áhuga á að setjast að samningaborði með Georgíumönnum, því þeir hata Mikheil Saakashvili, forseta Georgíu, eins og pestina og vilja helst draga hann fyrir alþjóðlegan stríðsglæpadómstól.

Medvedev segir að árásaröflunum í Georgíu hafi nú verið refsað nægilega, andstæðingurinn hafi orðið fyrir miklum skaða og her þeirra sé í upplausn. Forsetinn hefur þó sagt hershöfðingjum sínum að verði þeir varir við frekari andspyrnu Georgíumanna þá skuli þeim útrýmt.

Mikheil Saakashvili, forseti Georgíu, hefur sakað Rússa um að ætla að leggja Georgíu undir sig á ný. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sagði í morgun að Rússar vildu stofna hlutlaust belti í Georgíu áður en formlegt vopnahlé hæfist. Þetta svæði yrði að vera nógu stórt til að koma í veg fyrir í eitt skipti fyrir öll að Georgíumenn gætu ráðist inn í Suður-Ossetíu.

Lavrov segir að rússneskar hersveitir sem nú eru við friðargæslu í Ossetíu myndu verða þar áfram en að georgískir hermenn sem voru í friðargæsluliðinu ættu ekki að snúa aftur. Hann sagði ennfremur að best væri að Saakashvili forseti færi frá, honum væri ekki treystandi en að það væri ekki krafa af hálfu Rússa. Saakashvili segist hvergi munu fara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×