Innlent

Sótti um pólitískt hæli með falsað vegabréf

Hæstiréttur staðfesti í dag að erlendur karlmaður skuli sæta gæsluvarðhaldi til 1. september á meðan lögregla rannsakar mál hans.

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að maðurinn hafi komið til landsins 7. júlí og verið með falsað belgískt vegabréf. Hann var fjórum dögum síðar dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir skjalafals. Manninum var tilkynnt tveimur vikum síðar að honum yrði vísað úr landi og gæti ekki komið aftur og óskaði hann þá eftir pólitísku hæli sem flóttamaður.

Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn hafi við rannsókn málsins gefið upp annað nafn og sagst vera Palestínumaður. Fram kemur í gögnum Ríkislögreglustjóra að maðurinn hafi meðal annars sótt um hæli í Noregi og Svíþjóð og að hann sé þekktur af tökuheitum víðs vegar.

Þá segir í úrskurðinum að lögregla hafi tvívegis haft afskipti af manninum vegna ölvunar og óspekta. Annars vegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 2. ágúst og hins vegar 6. ágúst sl. á Miðbakkanum í Reykjavíkurhöfn. Leikur rökstuddur grunur á að maðurinn hafi gefið rangar upplýsingar um sig og að hann hafi sýnt af sér hegðun sem sem gefi til kynna að af honum geti stafað hætta. Taldi lögreglustjóri því nauðsynlegt að maðurinn sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans eru til rannsóknar hjá lögreglu og Útlendingastofnun.

Enn fremur hafa sýni af fingraförum mannsins verið send utan og samkvæmt svörum frá Interpol hefur hann ítrekað komið við sögu hjá lögreglu og útlendingayfirvöldum í nokkrum löndum undir nokkrum nöfnum, meðal annars sem líbískur borgari. Var hann eitt sinn fluttur af yfirvöldum í Þýskalandi til Líbíu. Þá hefur komið fram að hann sé kunnur af fíkniefnabrotum og hótunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×