Erlent

Stutt í samninga um hermenn í Írak

Condoleezza Rice ásamt forsætisráðherra Írak Nouri al-Maliki og túlki þeirra.
Condoleezza Rice ásamt forsætisráðherra Írak Nouri al-Maliki og túlki þeirra. Mynd/AP

 

Utanríkisráðherra Írak, Hoshyar Zebari, segir að Írakar og Bandaríkjamenn séu mjög nálægt þvi að ná samningum um framtíð hersveita Bandaríkjamanna í Írak. Hann segir einnig að báðir aðilar hafi lagt mikið á sig til þess að ljúka erfiðum samningaviðræðum sem staðið hafa yfir í um tíu mánuði.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom óvænt til Bagdad í dag. Hún taldi að lokasamningurinn kæmi heim og saman við Írak sem fullvelda ríki. Hvenær herir Bandaríkjanna yfirgefa landið er hins vegar enn óljóst.

Uppkast að samningnum sem nú er til umræðu felur í sér skuldbindingu bandarískra hersveita til að hefja brottflutning úr borgum í Írak frá og með næsta sumri. Eiga þær þá að flytja í stórar herstöðvar úr augsýn almennings.

Rice hefur áður sagt að tímasetningin varðandi brottför hersins þurfi að fara eftir ástandinu í Írak. Auk þess þurfi forseti Bandaríkjanna, forsætisráðherra Íraks og Íraksþing að samþykkja brottflutninginn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×