Erlent

Styttist í að Obama tilkynni um varaforsetaefni

Áhugamenn um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum halda nú niðri í sér andanum og bíða eftir næstu stórfrétt: hver verður varaforsetaefni Baracks Obama frambjóðanda Demókrataflokksins.

Barack Obama þarf að komast í fréttirnar á jákvæðan hátt sem aldrei fyrr - því nýjustu skoðanakannanir vestra benda til að keppinautur hans, John McCain, sé búinn að ná ríflegu forskoti á hann - og munar þar allt að sjö prósentustigum. Fram til þessa hefur Obama haft stöðuga forustu.

Þeir sem best til þekkja segja að val Obama standi nú á milli þriggja manna: Josephs Bidens, öldungadeilarþingmanns frá Delaware, Evans Bayh, öldunadeildarþingmanns frá Indiana, og Tims Kaine, ríkisstjóra í Virginíu.

En þetta veit enginn fyrir víst nema Barack Obama sjálfur. Hann er alveg klár á hvers konar mann hann vill ekki. Ljóst er að hann vill ekki annan Dick Cheney.

Það skýrist í síðasta lagi á laugardaginn hver hefur orðið fyrir valinu því þá kemur Obama fram á miklum útifundi í Springfield í Illinois, þar sem hann hóf baráttu sína til að flytja heimilishaldið í Hvíta húsið í Washington.

Þeir þrír sem taldir eru líklegastir eru þögulir sem gröfin - nema Joe Biden sem svaraði stuttaralega þegar fréttamenn spurðu hann í vikunni: ,,Ég verð ekki varaforsetaefnið."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×