Erlent

Þriggja daga þjóðarsorg á Spáni

Víða var hinna látnu minnst með þagnarstundum.
Víða var hinna látnu minnst með þagnarstundum. MYND/AP

Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir á Spáni eftir að flugvél spænska flugfélagsins Spanair fórst skömmu eftir flugtak frá Baraja-flugvelli í gær.

153 létust í slysinu og 19 slösuðust, þar af fjórir mjög alvarlega. Ættingjar fórnarlambanna hafa streymt til Madrídar í dag til að bera kennsl á þau og þá hafa þúsundir manna minnst hinna látnu með þagnarstundum.

Rannsókn á orsökum slyssins er á byrjunarstigi og hafa flugmálayfirvöld ekki viljað staðfesta að eldur hafi komið upp í öðrum hreyflinum skömmu eftir flugtak. Spænskir miðlar greina frá því að flugmaður vélarinnar hafi tilkynnt um bilun og að vélinni hafi verið snúið við fyrir flugtak til skoðunar. Að henni lokinni hafi flugtak verið reynt aftur.

 

„Ég leit upp og sá lík á víð og dreif," er haft eftir Ligiu Palomino læknum, einum af fáum eftirlifendum slyssins.

Eigandi vélarinnar, Spanair, er nærstærsta flugfélag Spánar og dótturfélag hins norræna SAS. Til stóð að selja það en SAS tilkynnti nýverið að þær áætlanir yrðu lagðar á hilluna í bili.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×