Erlent

Efnahagslægðin heldur fólki heima hjá sér í sumarfríinu

Ekkert aðildarríkja OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, mun komast hjá efnahagslægðinni sem nú gengur yfir heiminn. Útlitið næstu sex mánuði er dapurlegt, að því er segir í nýjustu skýrslu stofnunarinnar og það sama gildir um sjö helstu hagkerfi heims. Hagvöxtur í Kína og Brazilíu fer hinsvegar enn vaxandi.

OECD byggir spá sína á þróun vísitala í aðildarríkjunum þrjátíu og nær sex mánuði fram í tímann. En það þarf ekki að bíða í sex mánuði til að finna fyrir léttari buddum - bæði hér heima og erlendis blasir efnahagslægðin við hverjum sem vill sjá það.

Þetta er áberandi í nágrannalöndunum þar sem fleiri en nokkru sinni njóta sumarleyfisins heima fyrir en fara ekki í dýrar ferðir til útlanda. Það eru fleiri á breskum baðströndum en um langt árabil - og París er full af fólki - sjálf París, sem venjulega tæmist í ágústmánuði á meðan borgarbúar fara í sumarfrí uppí sveit eða til nágrannalandanna.

Parísarbúar sitja nú og lesa eða sóla sig lesa í sólstólum á Signubökkum þar sem sturtað hefur verið fjörusandi til að búa til eftirlíkingu af gullnum ströndum sólarlanda.

Hótelhaldarar í Frakklandi segja að hótelbókanir séu enn svipaðar og í fyrra - en veitingahús og matsölur standa frammi fyrir 20-30% samdrætti: fólk heldur í við sig í mat og drykk. Stöðugt fleiri biðja um vatn með matnum í stað víns - og fólk biður um kranavatn, ekki dýrt vatn á flöskum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×