Innlent

Segjast hafa verið hlunnfarnir

Fyrrverandi starfsmenn Landsbankans í Lúxemborg segjast hafa verið hlunnfarnir eftir að bankinn fór í gjaldþrot, loforð hafi verið svikin og fólk skilið eftir í algerri óvissu. Efnt var til kröfufundar fyrir utan höfuðstöðvar bankans ytra í dag.

Nokkrir tugir manna og kvenna - Íslendingar þar á meðal - stóðu ásamt börnum sínum í suddanum fyrir utan sinn fyrri vinnustað í dag - Landsbankann í Lúxemborg - og kröfðust þess að staðið yrði við loforð um greiðslu lögbundinna launa í uppsagnarfresti eftir að bankinn fór í þrot. Fullyrt er að fólk fái ekki borgað og enginn viti hvað framundan sé. Móttökurnar voru jafn kuldalegar og tíðarfarið, fólkinu var ekki hleypt inn í bankann og enginn vildi veita upplýsingar.

Skiptastjórar frá Lúxemborg voru settir yfir bankann þegar gjaldþrot varð ekki umflúið og misstu um 160 manns vinnu sína, þar af um 40 Íslendingar. Um 50 manns voru endurráðnir í gær á allt öðrum og verri kjörum en áður, samkvæmt heimildarmönnum fréttastofu. Eins og staðan er í dag eru starfslokagreiðslur annarra í uppnámi og hugsanlegt að þeir þurfi að gera kröfu í þrotabúið til að fá laun sín greidd á endanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×