Erlent

Veita aðskilnaðarhéruðum í Georgíu fullan stuðning

Rússar ætla að veita aðskilnaðarhéruðunum í Georgíu fullan stuðning í væntanlegum viðræðum um framtíð þeirra. Dmitry Medvedev Rússlandsforseti sagði þetta í morgun eftir fund með foringjum uppreisnarmanna í héruðunum tveimur. Þessari ákvörðun verður áreiðanlega ekki vel tekið í Washington sem hefur heitið Georgíu stuðningi.

Á meðan Medvedev sat á fundi með uppreisnarforingjunum frá Suður Ossetíu og Abkasíu var verið að ljúka við að aflesta bandaríska herflugvél sem lenti í gærkvöld hlaðin hjálpargögnum í Tblisi í Georgíu. Þetta var fyrsta vélin af mörgum sem Bandaríkjastjórn hefur heitið að senda þangað austur til að sýna stuðning sinn við Georgíu í verki þar með talinn stuðning við óbreytt landamæri ríkisins.

Rússar hafa nú hafið brottflutning herja sinna og eru farnir að afhenda heimamönnum yfirráð yfir borginni Gori og nágrannasveitunum. Rússneskur hershöfðingi þar sagði fréttamönnum í morgun að hersveitir hans myndu engu að síður verða um kyrrt í nokkra daga til að hreinsa burt vopnabúnað sem liggur þar eins og hráviði um allt og til að koma á lögum og reglu, eins og hann orðaði það.

Það er augljóslega ekki orðið enn því fréttamaður BBC sagðist í morgun heyra sprengingar í hæðunum umhverfis borgina. Rússar hertóku Gori um tíma fyrr í vikunni og leiddi það til mikils flótta georgískra hermanna og óbreyttra borgara í gær.

Í borginni Zugdidi í vesturhluta Georgíu var þó enn fjölmennt rússneskt herlið í gærkvöld - en virtist vera að tygja sig til brottfarar. Zugdidi er skammt frá landamærunum að Abkhazíu þar sem uppreisnarmenn hafa haldið uppi skotárásum á Georgíumenn.

Skilaboð Rússa til umheimsins eru því alveg skýr: þrátt fyrir vopnahléð og bandarískar herflugvélar sem lenda með hjálpargögn þá eru Rússar enn húsbændur á stórum svæðum í Georgíu og hersveitir þeirra eru ekki lengra frá Tblisi en svo að georgíska höfuðborgin er í auðveldu skotfæri.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×