Innlent

Toppa fagnaðarlætin á morgun 17. júní?

Búist er við álíka fjölda fólks í miðborg Reykjavíkur þegar Ólympíufararnir verða hylltir og á 17. júní. Brýnt er fyrir fólki að nota almenningssamgöngur og leggja bílum sínum í útjaðri miðborgarinnar.

Það verður mikið um dýrðir á morgun þegar íslenska íþróttafólkið verður hyllt við komuna til landsins. Ólympíufararnir munu keyra í opnum vagni um miðborgina og verða lúðrasveit og fánaberar með í för auk lögreglu. Risaskjár verður settur upp á Arnarhóli og eru allir hvattir til að fjölmenna og taka vel á móti afreksfólkinu.

Breytingar hafa verið gerðar á akstursleiðinni, en upphaflega stóð til að hefja för Ólympíufaranna frá Hlemmi. Þess í stað leggur vagninn af stað klukkan sex frá Skólavörðuholti framan við Hallgrímskirkju þar sem ekið verður niður Skólavörðustíg og Bankastræti og þaðan að Arnarhóli þar sem athöfnin fer fram.

Búist er við fjölmenni á morgun og er fólk beðið að haga ferðum sínum líkt og um hátíðarhöld á 17. júní væru að ræða. Lækjargötu við Geirsgötu verður lokað frá klukkan tíu í fyrramálið og Skólavörðustíg og Hverfisgötu við Ingólfsstræti verður lokað síðar um daginn.

Er þeim tilmælum beint til fólks að nota almenningssamgöngur eða leggja bílum sínum í útjaðri miðborgarinnar eða leggja í bílastæðahúsum við Lindagötu, Hverfisgötu, Ráðhúsinu, Kolaportinu, gamla Stjörnubíósreitnum á Laugavegi og við Vesturgötu 7. Bílastæðahúsin verða opin til níu annað kvöld og verður frítt að leggja þar frá klukkan fimm til lokunar. Þá ber að varast sérstaklega að leggja í þau stæði sem liggja meðfram akstursleiðinni niður Skólavörðustíg og Bankastræti.

Athöfnin verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 annað kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×