Erlent

Íslendingur segir mótmælin í Mongólíu vera mjög ofbeldisfull

Þór Daníelsson, fulltrúi Rauða krossins í Mongólíu, segir að mótmælin í Ulan Bator höfuðborg landsins séu mjög ofbeldisfull. Miklar óeirðir brutust út í gærkvöld og í nótt sem enduðu með því að hið minnsta fjórir létust og 300 særðust.

Þór segir að mótmælendur hafi beitt miklu ofbeldi gagnvart lögreglunni. „Það voru þarna þúsundir manna sem að stóðu hjá og hvöttu óeirðarseggina áfram í ofbeldisverkunum," sagði Þór í samtali við Vísi.

Kosið var í Mongólíu á sunnudaginn og náði stjórnarflokkurinn í landinu 45 sætum af 76 í þinginu, samkvæmt fyrstu tölum. Stjórnarandstæðingar sætta sig ekki við þá niðurstöðu. „Þeir eru að tala um kosningasvik, en það er samt ekki búið að telja öll atkvæðin," segir Þór.

Forsetinn hefur lýst yfir neyðarlögum í landinu og útgöngubann hefur verið sett í borginni og fólk má aðeins vera á ferð á tilteknum tímum og er því ætlað að ferðast aðeins með almenningsvögnum. Þór telur þó ekki að hann eða þeir sem eru í kringum hann séu í lífshættu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×