Erlent

Bretar mega aka fullir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/RVTravel

Breska stjórnin hefur hafnað tillögu heilbrigðisyfirvalda um að leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanna verði lækkað úr 80 í 50 milligrömm á hverja 100 millilítra.

Þetta táknar að Bretland verður fyrr en síðar eina landið í Evrópu þar sem ökumönnum leyfist að stjórna bifreið með áfengismagn yfir 0,5 prómill í blóði sínu. Jim Fitzpatrick hjá breska samgönguráðuneytinu segir að ráðuneytið muni ekki styðja þessa breytingu. Hann segist ekki sannfærður um að það feli í sér nokkra lausn að lækkan mörkin niður í 0,5 prómill, ökumenn sem aki um með 0,5 til 0,8 prómill af alkóhóli í blóði sínu séu einfaldlega ekki þeir sem stjórnvöld hafi teljandi áhyggjur af. Það séu hins vegar þeir sem eru á götunum með yfir eitt prómill í blóðinu sem séu áhyggjuefnið.

Hann bendir á að ekki hafi verið sýnt fram aukna slysatíðni þeirra sem aki með 0,5 til 0,8 prómill í blóðinu, að minnsta kosti ekki í Bretlandi. Háskóli einn í London hefur þó sýnt fram á að með því að lækka leyfilegu mörkin niður í 0,5 prómill verði unnt að bjarga að meðaltali 65 mannslífum á ári í umferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×