Erlent

Obama leitar að varaforsetaefni, Hillary ekki líkleg í stöðuna

Barak Obama er nú byrjaður að leita að varaforsetaefni sínu. Hillary Clinton hefur lýst áhuga á stöðunni en hún er ekki sú sem helst kemur til greina að mati fréttaskýrenda

Innsti kjarni í hópi stuðningsmanna Obama má ekki til þess hugsa að Hillary Clinton verði varaforsetaefni hans. Óttast þeir að nærvera hennar og eiginmannsins Bill Clinton í kosningabaráttunni og síðar í Hvíta húsinu muni hafa truflandi áhrif á störf Obama.

Til greina þykir koma að Hillary verði boðin staða heilbrigðisráðherra í stjórn Obama nái hann kjöri og raunar hefur Obama sjálfur orðað þann möguleika.

Obama hefur skipað þriggja manna uppstillingarnefnd til að búa til lista yfir vænleg varaforsetaefni. Caroline Kennedy, dóttir John F. Kennedy fyrrum forseta Bandaríkjanna, er í þessari nefnd.

Sá sem talinn er eiga mesta möguleika á að verða varaforseti Obama er John Edwards en hann var einn þeirra sem sóttust eftir útnefningu flokksins. Hann þykir álíka frjálslyndur og Obama og hefur þar að auki reynslu af forsetakosningum því hann var varaforsetaefni John Kerry í síðustu kosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×