Viðskipti erlent

Myntsláttur hafa ekki undan við að slá gullmyntir

Eftirspurn eftir gullmyntum er nú svo mikil í heiminum að ríkisreknar myntsláttur hafa ekki undan við að slá gullmyntir. Það sem er athyglisvert er að á sama tíma fer heimsmarkaðsverð á gulli lækkandi svipað og gildir um aðrar hrávörur eins og olíu og kopar.

Samkvæmt frétt í New York Post um málið er eftirspurnin í Bandaríkjunum eftir gullmyntum svo mikil þar í landi að US Mint þarf að skammta framleiðslu sínu á slíkum myntum til heildsala.

Robert Mish myntsali í Kaliforníu segir að viðskiptavinir hans sem vilja kaupa gullmyntir þurfi nú að bíða allt að tvær vikur til að fá þær í hendur. Fyrir hálfu ári var hægt að selja myntirnar um leið og beðið var um þær.

Fyrir skömmu síðan voru myntir á borð við American Eagle seldar á 5% yfir heimsmarkaðsverði á gulli. Nú er álagningin á bili 10% til 15%.

Eftirspurn eftir gulli á kreppu- og óvissutímum er þekkt fyrirbrigði í sögunni enda er gull talið besta fjárfestingin á slíkum tímum. Það sem vekur spurningu er hinsvegar afhverju eftirspurn eftir gullmyntum eykst á meðan verð á gulli fer lækkandi. Gullverð náði hámarki í haust er únsan fór í rúma 900 dollara. Nú er verðið tæplega 700 dollarar.

Og það er ekki bara í Bandaríkjunum sem eftirspurnin er meiri en framboðið því hið sama gildir um Maple Leaf myntir í Kanada og Krugerrand í Suður-Afríku svo dæmi séu tekin.

Einn sérfræðinganna sem New York Post ræddi við segir að gullverð ætti að vera á uppleið miðað við söluna á gullmyntum. Hann telur einu ástæðuna fyrir því að það gerist ekki sé sú að bankar og ríkisstjórnir haldi verðinu niðri af ásettu ráði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×