Innlent

Fjármagnseigendur greiði skatt eins og launþegar

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Samtals höfðu 384 framteljendur meira en 10 milljónir í fjármagnstekjur á árinu 2007 en engar eða óverulegar launatekjur. Um er að ræða 120 einstaklinga en 264 hjón. Vinstri grænir hyggjast leggja fram frumvarp að nýju, þess efnis að þessum einstaklingum verði skylt að reikna sér endurgjald þannig að þeir greiði tekjuskatt og útsvar eins og venjulegir launþegar.

„Það er hér hópur, býsna fjölmennur, sem telur litlar eða engar launatekjur fram en hefur umtalsverðar fjármagnstekjur. Afleiðingar þess er að það fólk borgar engan tekjuskatt," sagði Steingrímur J. Sigfússon þegar að hann, ásamt Katrínu Jakobsdóttur, kynnti áherslur Vinstri grænna í skatta- og ríkisfjármálum í gær. „Það borgar ekkert útsvar. Það borgar ekki einu sinni nefskatt í framkvæmdasjóð aldraðra, af því að það telst ekki hafa laun. Samt er þarna all fjölmennur hópur með fjármagnstekjur allt upp í 10, eða 20 eða jafnvel 40 milljónir á ári," bætti Steingrímur við. Hann telur eðlilegt að þetta fólk reikni sér hóflegt endurgjald eins og að það væri í vinnu hjá sjálfu sér við að ávaxta sitt eigið fé.

Steingrímur benti á að bændur séu skyldaðir til að reikna sér slíkt endurgjald jafnvel þó að rekstur búsins gangi illa. Hið sama gildi um fólk í sjálfstæðum atvinnurekstri.

Steingrímur benti á að um væri að ræða mikið réttlætismál því að fjármagnseigendur þæðu margvíslega þjónustu, bæði á vegum sveitarfélaga og ríkisins, án þess að greiða fyrir það eins og venjulegir launþegar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×