Innlent

Útilokar ekki skattahækkanir

Ríkisstjórnin boðar allt að 50 milljarða króna niðurskurð í fjárlögum fyrir næsta ár. Þrátt fyrir hækkun ýmissa gjalda sem hækkun tekjuskatts upp á eitt prósentustig er gert ráð fyrir að ríkisjóður verði rekinn með um 170 milljarða krónu halla.

Því er ljóst að niðurskurðinn verður mun meiri árið 2010 og er það einnig í samræmi við samkomulag ríkistjórnarinnar við alþjóðagjaldeyrisjóðinn.

„Því miður þá held ég að það sé fyrirsjáanlegt að þó það sé erfitt að koma saman fjárlögunum núna þá verður það ekki léttara fyrir árið 2010," segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

Tekjur ríkisins hafa dregist verulega saman í kjölfar bankahrunsins og í ofanálag verður ríkið mæta kostnaði vegna lántöku til endurreisnar efnhagslífsins.

„Árið 2009 erum við að kannski að stærstum hluta að taka til baka aukningu sem ýmist var áætluð á því ári eða koma til framkvæmd á þessu ári. Þannig að við höfum haft talsvert svigrúm," segir Geir H. Haarde forsætisráðherra. „En á næsta ári, 2010, þurfum við væntanlega að huga að kerfisbreytingum með einhverjum hætti til að draga úr útgjöldum ríkisins."

Vinna við samræmda niðurskurðaráætlun hefst strax eftir áramót.

Geir segir of snemmt að spá fyrir um hvort skattahækkanir verði árið 2010. Eins og staðan er núna sé þó ekki hægt að útiloka neitt í þeim efnum.

Vinstri grænir vilji að ríkisstjórnin komi strax á fót hátekjuskatti til að draga úr niðurskurði.

„Það er allavega ekki hægt að auka frekari álögur á aldraða og öryrkja með niðurskurði í almannatryggingakerfinu eða á lágtekjufólk," segir Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri-grænna. Hann segir þeim mun undarlegra að ríkisstjórnin skuli ekki reyna að afla tekna þannig að þeir leggji af mörkum sem eru í bestri aðstöðu til þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×