Sport

Hermann ætlar að gera út um HM-draum Skota

Hermann Hreiðarsson er hvergi banginn.
Hermann Hreiðarsson er hvergi banginn.

Hermann Hreiðarsson bauð gamla læriföður sinn George Burley velkominn til Íslands í gær en lofaði honum samt sem áður því að eftir leikinn við Ísland muni hann þurfa að berjast fyrir landsliðsþjálfarastarfinu. Það var Burley sem fékk Hermann til Ipswich á sínum tíma.

Í viðtali við skoska blaðið the Daily record segist Hermann vonast til þess að úrslitin í kvöld, þegar Íslendingar mæta Skotum á Laugardalsvelli, verði til þess að Burley þurfi á litlu kraftaverki að halda til þess að eiga möguleika á HM sæti 2010. „George hefur greinilega mikið vit á fótbolta, hann keypti mig til Ipswich og lét mig spila alla leiki," sagði Hermann og bætti því við að Burley væri þjálfari að hans skapi.

„En þetta snýst allt um úrslitin. Öllum er sama hvernig þú spilar eða hvað gerist á vellinum. Fótbolti er harður leikur og getur verið miskunarlaus. En þannig er það alltaf og þannig hefur það alltaf verið," sagði Hermann.

Blaðið bendir á að Skotar séu 91 sæti fyrir ofan Ísland á FIFA listanum en Hermann segist ekki taka mark á því. „Ég spái ekkert í því að við séum í 107. sæti. Ég lít bara í kringum mig á liðsfélaga mína og sé að við erum miklu betri en sætistalan gefur til kynna," segir Hermann og bætir við að þrátt fyrir góð kynni hans af Burley geti hann ekki látið það hafa áhrif í leiknum. „Þegar þú ferð í landsliðstreyjuna skiptir ekkert annað neinu máli."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×