Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Aker-sjúkrahússins í Noregi, segir að hún vilji ekki skapa vangaveltur varðandi sig og forstjórastöðu Landspítala. Hulda hefur verið nefnd sem hugsanlegur forstjóri.
Í samtali við Vísi vildi hún ekki gefa upp hvort hún hafi nú þegar eða hafi hug á að sækja um forstjórastöðuna.
Hulda er menntuð sem hjúkrunarfræðingur og hefur starfað sem forstjóri Aker-sjúkrahússins í Osló frá því í mars 2006. Þar starfa 3500 starfsmenn og veltir sjúkrahúsið rúmlega 3,5 milljörðum norskra króna árlega eða hátt í 56 milljörðum íslenskra króna.
Umsóknarfrestur um starg forstjóra Landspítalans er til 15. júlí og ráðið verður í það frá 1. september til fimm ára.