Innlent

Ódýrari SMS-skilaboð með nýrri reglugerð ESB

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ný reglugerð Evrópusambandsins um farsímaþjónustu innan sambandsins mun gilda hér með stoð í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta staðfestir Óskar Hafliði Ragnarsson, lögfræðingur hjá Póst- og fjarskiptastofnun. „Við þurfum að innleiða hana, við erum aðilar að þessu samstarfi gegnum EES-samninginn. Það þarf bara að fullgilda reglugerðina hér svo að hún taki gildi," segir Óskar Hafliði.

Nái hin nýja reglugerð ESB fram að ganga verður tekið upp hámarksgjald á SMS-skilaboð innan sambandsins sem lagt er til að verði ekki hærra en 11 evrusent. Í íslenskum krónum er sú upphæð núna rúmar 13,50 krónur enda evran metin á 123,36 krónur þegar þetta er skrifað.

Ef litið er á verðskrá Símans fyrir svokallaða Betri leið í GSM kostar SMS þar 10,50 krónur í innlent númer en 15 krónur í erlent númer. Verð fyrir SMS-skilaboð í innlent númer lendir því innan verðhámarksins en fyrir erlenda númerið yrði það einni og hálfri krónu of hátt.

Meðalkostnaður við að senda SMS-skilaboð milli landa innan ESB er nú 29 evrusent, tæpar 36 krónur, en þar kemur til hækkun vegna svokallaðra reikisamninga, það er samninga milli fjarskiptafyrirtækja sem viðskiptamenn þeirra nýta sér þegar þeir eru á ferðalagi og staddir erlendis. Íslenskir neytendur þekkja væntanlega vel muninn á því að senda SMS-skilaboð þegar þeir eru staddir erlendis miðað við hér heima. Þar getur munað tugum króna.

Hin nýja reglugerð ESB verður lögð fram til kynningar um næstu mánaðamót ef að líkum lætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×