Erlent

Sjö rússneskir friðargæsluliðar látast í sprengingu í S-Ossetíu

MYND/AP

Sjö rússneskir friðargæsluliðar létust og aðrir sjö særðust eftir að bíll með sprengiefni var sprengdur í loft upp nærri herstöð í Suður-Ossetíu, sjálfsstjórnarhéraði í Georgíu, fyrr í dag.

Rússnesk yfirvöld segja að á bak við árásina hafi staðið aðilar sem hafi viljað gera ástandið í héraðinu ótryggara og vísa þannig til stjórnvalda í Georgíu. Því hafna yfirvöld í Tblisi en grunnt hefur verið á því góða milli Rússa og Georgíumanna eftir að Rússar réðust inn í Georgíu í ágústmánuði að eigin sögn til að verja rússneska borgara í Suður-Ossetíu.

Rússneskur hershöfðingi segir í samtali við RIA-fréttastöðina að rússneskir friðargæsluliðar hafi gripið tvo bíla en í þeim voru fjórir Georgíumenn með vopn. Segir hershöfðinginn að þegar leit hafi staðið yfir í öðrum bílnum hafi hann sprungið með fyrrgreindum afleiðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×