Innlent

Ritskoðun þingmanna jaðrar við sögufölsun

Sagnfræðingafélag Íslands segir í bréfi til Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, að það jaðri við sögufölsun þegar þingmenn gera efnis- og merkingarlegar breytingar á orðum sínum í trássi við lög og reglur sem eiga að tryggja að slíkt eigi sér ekki stað.

Félagið fer fram á að Alþingi tryggi að þingmenn og starfsfólk fari í einu og öllu eftir þeim lögum sem gilda um Alþingistíðindi og líti ekki undan þegar þingmenn geri efnisbreytingar umfram þær „auðsæju og sannarlegu villur" sem kveðið er á um í lögum um þingsköp.

Komið hefur í ljós að algengt er að þingmenn breyti merkingu ummæla sem þeir láta falla í ræðustól á þingi áður en ræðurnar birtast að lokum í Alþingistíðindum.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, viðurkenndi í samtali við Vísi í seinustu viku að hann hafi umorðað ræðu sína um siðgæði í grunnskólum á Alþingisvefnum eftir að hann flutti hana í ræðustól Alþingis. Í ræðu sinni lét Guðni eftirfarandi orð falla: „[...]það er ekki til neitt siðgæði í rauninni nema kristið siðgæði." Á vef Alþingis má hins vegar lesa ræðuna og þá hefur þessari setningu verið breytt en þar stendur: „Það er í rauninni ekki til neitt sem hefur bætt heiminn jafnmikið og kristið siðgæði."

,,Það gefur auga leið að ummæli sem raunverulega féllu á þingi eru allt annars eðlis en ummæli sem þingmenn hefðu viljað hafa látið falla eftir talsverða umhugsun og sjálfsritskoðun," segir í bréfi Sagnfræðingafélagsins til Sturlu.








Tengdar fréttir

Guðni viðurkennir að hafa umorðað ræðu sína

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, viðurkennir í samtali við Vísi að hann hafi umorðað ræðu sína um siðgæði í grunnskólum á Alþingisvefnum eftir að hann flutti hana í ræðustól Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×