Viðskipti innlent

Skuldatryggingarálag bankanna og ríkisins minnkar hratt

Viðsnúningur hefur orðið á þróun skuldatryggingaálags bankanna en álagið fjarlægist nú óðfluga þann sögulega hátind sem álagið náði undir lok síðasta mánaðar.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að álag á skuldatryggingar Kaupþings til 5 ára stendur nú í 710 punktum sem er 340 punktum minna en um síðustu mánaðamót þegar álagið náði hápunkti í 1.050 punktum.

Álagið á sambærilegar skuldatryggingar Glitnis hefur lækkað um 280 punkta frá því sem mest var og er nú 720 punktar og álag Landsbankans hefur lækkað um 400 punkta frá því í lok mars þegar álag á 5 ára skuldatryggingar Landsbankans náði hápunkti í 800 punktum.



Mikla hækkun skuldatryggingaálags íslensku bankanna undanfarna mánuði má líklegast rekja að verulegu leyti til þess áhlaups sem talið er að gert hafi verið á íslenska hagkerfið af erlendum fjárfestum og vogunarsjóðum, og Fjármálaeftirlitið hefur nú til athugunar. Er líklegt að sá vandi sé nú úr sögunni.



Skuldatryggingaálag á skuldbindingar íslenska ríkisins til fimm ára hefur einnig lækkað mikið frá því í upphafi mánaðar. Álagið stendur nú í 260 punktum en var 410 punktar í byrjun apríl. Til samanburðar má geta þess að álagið var innan við 20 punkta í október síðastliðnum og á bilinu 5-15 punktar síðastliðið sumar.

Ljóst er að ef þessi viðsnúningur er varanlegur gætu skilyrði fyrir lántöku ríkissjóðs orðið ásættanleg innan skamms en eins og kunnugt er hyggst Seðlabankinn í samvinnu við stjórnvöld taka lán til að efla gjaldeyrisforðann þegar skilyrði á alþjóðlegum lánamörkuðum verða hagstæðari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×