Erlent

Lögreglan hunsaði vísbendingar í Kampusch-málinu

Austurríska lögreglan rannsakaði ekki tvær vísbendingar sem hefðu getað leitt hana á slóð mannsins sem rændi Natöschu Kampusch og hélt henni í prísund sinni í átta ár.

Þetta er niðurstaða hóps sem vann sjálfstæða rannsókn á málinu.

Natascha Kampusch var aðeins 10 ára gömul þegar henni var rænt árið 1998. Henni var svo haldið fanginni í dýflyssu undir bílskúr þangað til hún náði að flýja árið 2006.

Sá sem rændi henni, Wolfgang Priklopil, framdi sjálfsmorð fáeinum klukkutímum síðar.

Í rannsókn sem innanríkisráðuneyti Austurríkis lét vinna kemur fram að lögreglumaður hafi skilað inn skýrslu, mánuði eftir að Kamusch var rænt, þar sem fram kom að Priklopil gæti verið mannræninginn sem lögreglan leitaði að.

Í skýrslunni kom fram að Priklopil laðaðist kynferðislega að börnum auk þess sem líkamlegum einkennum hans var lýst.

En þeir sem stýrðu rannsókninni fylgdu skýrslunni ekki eftir að neinu ráði. Á svipuðum tíma var Priklopil yfirheyrður af lögreglu vegna þess að hann átti hvítan pallbíl svipuðum þeim sem vitni sögðust hafa séð Kampusch setta inn í þegar henni var rænt.

Í skýrslum lögreglu frá þessum tíma kemur fram að Priklopil hafði ekki neina fjarvistarsönnun en hann sagðist hafa verið einn heima hjá sér daginn sem Kampusch var rænt.

Samt sem áður var hann ekki yfirheyrður frekar. Líklega hefði það verið gert ef þeir sem sáu um yfirheyrsluna hefðu vitað að Priklopil væri haldinn barnagirnd.

"Það hefði þurft að rannsaka þessa þætti betur," segir í tilkynningu á heimasíðu innanríkisráðuneytisins, sem birt var í dag. Skýrslan sem lýsir rannsókninni sem ráðuneytið lét vinna er 58 síður og var birt í heild sinni í dag.

Kampusch sjálf lýsti yfir vonbrigðum með það hvernig lögregla hefði staðið að rannsókninni en vildi ekki segja hvort hún hyggðist fara fram á skaðabætur.

Kampusch gerðist spjallþáttastjórnandi fyrir skömmu en fyrsti þátturinn hennar var sýndur fyrir fáeinum vikum. Þá tók hún ítarlegt viðtal við kappaksturshetjuna Niki Lauda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×