Viðskipti innlent

Eiga 8,4 milljarða kr. til tryggingar á innistæðum í bönkum

Heildareignir Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta námu 8,4 milljörðum króna í lok síðasta árs en þær voru að stærstu hluta innlend skuldabréf sem og erlend skuldabréf.

Greining Kaupþings fjallar um sjóðinn í Hálf fimm fréttum sínum. Þar segir að hér á landi ábyrgist sjóðurinn innlán sparifjáreigenda fyrir fjárhæð sem nemur að lágmarki 20.887 evrur, jafnvirði rúmra 3,2 milljóna króna miðað við gengi evrunnar í dag.

Tryggingarsjóðurinn var stofnaður í árlok 1999. Sjóðurinn var rekinn með 1.535 milljóna króna hagnaði á síðasta ári og 1.731 milljón króna hagnaði árið 2006.

Nær trygging sjóðsins til heildarfjárhæðar innstæðna einstaklinga og fyrirtækja í hverjum banka, það er ein kennitala sparifjáreiganda á hvern banka eða sparisjóð. Hefur því ábyrgðin í íslenskum krónum hækkað talsvert á árinu, enda hefur evran styrkst um 70% gagnvart krónu frá áramótum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×