Innlent

Fjölmenni á stuðningsfundi við ljósmæður

Forsvarsmenn Ljósmæðrafélagsins eru meðal þeirra sem eru á Austurvelli.
Forsvarsmenn Ljósmæðrafélagsins eru meðal þeirra sem eru á Austurvelli. MYND/Anton
Talið er að nokkur hundruð manns hafi safnast saman á Austurvelli til þessaað styðja ljósmæður í kjarabaráttu sinni. Ekkert hefur þokast í deilu ljósmæðra og ríkisins en fyrsta verkfallinu lýkur á miðnætti.

Boðað var til baráttufundarins í gær eftir að í ljós kom að samningafundur ljósmæðra og samninganefndar ríkisins reyndist árangurslaus. Hefur næsti samningafundur ekki verið boðaður fyrr en á þriðjudaginn.

Ófrísk kona, 9 ára dóttir, langamma og eldri móðir tóku til máls á fundinum og lýstu yfir stuðningi við kröfur ljósmæðra um að laun þeirra verði leiðrétt í samræmi við menntun þeirra. Að loknu ávarpi þeirra tók Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, til máls og þakkaði fyrir stuðninginn.

MYND/Anton

Á fæðingardeild Landspítalans hafa fimmtán börn fæðst frá því verkfall ljósmæðra hófst og hafa fæðingarnar gengið vel samkvæmt upplýsingum frá spítalanum. Þjónusta við verðandi mæður er hins vegar nokkuð skert en sængulegudeildin Hreiðrið er lokuð svo og meðgöngudeildin þar sem þjónusta er fyrir verðandi mæður.

Fjölmörg samtök hafa lýst yfir stuðningi við ljósmæður og hvöttu þau fólk til að mæta á útifundinn á Austurvelli. Þeirra á meðal voru Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Læknafélag Íslands.

Tveggja sólarhringa verkfalli ljósmæðra lýkur í kvöld en næsta verkfall hefst á miðnætti næsta miðvikudag ef ekki hefur verið samið fyrir þann tíma.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×