Innlent

Algebra og rúmfræði vefst fyrir grunnskólanemum í samræmdum prófum

Samræmd próf

Samkvæmt Sigurgrími Skúlasyni, próffræðing hjá Námsmatsstofnun, hafa 28-40 prósent nemenda undanfarin ár ekki hlotið fimm eða hærra í einkunn í samræmdum prófum í stærðfræði. Í ár var hlutfalið 28,4 prósent. Sigurgrímur segir nemendur eiga erfitt með að ná valdi á ákveðnum hlutum og nefnir algebru og rúmfræði í því samhengi. Aftur á móti gengur grunnskólanemum betur í ensku og íslensku og eru rúmlega 9-11 prósent sem ekki ná prófunum.

Í ár tókst grunnskólanemum best upp í ensku og var meðaleinkunnin 6,9. Í íslensku var einkunnin 6,7 en í stærðfræði gekk nemendum verr upp og var meðaltalseinkunnin 5,8.

Lítill munur er eftir kjördæmum þegar einkunnir eru skoðaðar fyrir íslensku og ensku. Nemendum í Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi gekk ívið verr en jafnöldrum þeirra í öðrum kjördæmum. Mestu munar á milli kjördæma í stærðfræði en í greininni eru nemendur í Suðvesturkjördæmi að meðaltali skarpastir með einkunnina 6,3 á meðan að nemendur í Suðurkjördæmi reka lestina með meðaltalið 5,0.

Grunnskólanemendur þurfa ekki að taka samræmd próf og því er valfrjálst í hversu mörgum greinum þeir þreytta prófin. Að sögn Sigurgríms hefur undanfarin ár færst í vöxt að nemar í 8. og 9. bekk taki samræmd próf. Í ár tóku til að mynda 17,5 prósent nemenda í 9. bekk samræmda prófið í ensku og 9 prósent í stærðfræði. Aðspurður segir Sigurgrímur að ,,ef til vill eru fleiri nemendur að taka prófin en hafa erindi."

Listi yfir gengi einstakra skóla verður gerður opinber af Námsmatsstofnun síðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×