Innlent

Átta hundruð fjölskyldur þáðu aðstoð

Um þrjú hundruð fjölskyldur sóttu jólamatinn til Fjölskylduhjálpar Íslands í gær.
Um þrjú hundruð fjölskyldur sóttu jólamatinn til Fjölskylduhjálpar Íslands í gær. MYND/Fréttablaðið/Vilhelm
Löng biðröð myndaðist í gær við hús Fjölskylduhjálpar Íslands í Eskihlíð þegar þriðja og síðasta matarúthlutun fyrir jólin fór fram.

Til Fjölskylduhjálparinnar leitar meðal annars fólk úr lágtekjuhópum, öryrkjar, einstæðir foreldrar, eldri borgarar og aðrir þeir sem tekst ekki að láta enda ná saman.

„Að minnsta kosti þrjú hundruð fjölskyldur fengu úthlutað hjá okkur í dag," sagði Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálparinnar, eftir úthlutun gærdagsins. Í fyrri úthlutunum, 10. og 17. desember, höfðu samtals fimm hundruð manns leitað til samtakanna eftir aðstoð. Samtals þáðu því átta hundruð fjölskyldur aðstoð Fjölskylduhjálparinnar fyrir þessi jól.

Matarskammturinn var vel útilátinn, enda fjöldi fyrirtækja og einstaklinga sem styrkja Fjölskylduhjálpina fyrir jólin. Hver fjölskylda fékk hátíðarmat, eins og hamborgarhrygg, meðlæti, gos, ís, epli og mandarínur, auk annarra matvæla.

Ásgerður Jóna segir framlögin gera gæfumuninn. „Þetta var mjög vel útilátið hjá okkur, enda studdu margir vel við bakið á okkur nú fyrir jólin, bæði með matargjöfum og öðrum framlögum." - hhs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×