Skoðun

Opið bréf til forseta Íslands

Hæstvirtur forseti,

Við lestur fréttatilkynningar frá forsetaembættinu í dag, slær mér óhug að aðgerðir forseta Íslands í yfirstandandi hörmungum landsmanna takmarkist við kaffispjall hér innanlands.

Nú er þörf á tafarlausum og skilvirkum aðgerðum forseta og hann í krafti embættis síns hindri enn frekari mistök í efnahagsstjórninni.

Í bók minni Virkjum Bessastaði 1996 var spáð fyrir um algert hrun fjármálamarkaða og efnahagskerfis. Við tilkynningu um forsetaframboð mitt í Valhöll á Þingvöllum sagði ég Stjórnarráðið undir áhrifum huldumanna sem væru að arðræna og mergsjúga þjóðina. Ég vildi umboð þjóðarinnar að taka á þessu áður en hér væri sviðin jörð.

Síðastliðna tvo áratugi hefur hver spillingin ellt aðra. Tilfærsla á gífurlegum verðmætum til kvótakónga og svo sala þeirra úr sjávarútvegi var upphafið á núverandi hruni. Þessi darraðadans mun endurtaka sig ef ekki er nú strax gripið í taumana og byggt upp varanlegt hagkerfi.

Nauðsynlegt er að leita nú til helstu hugsuða samtímans í fjármálum eins og George Soros, Warren Buffet og annarra slíkra sérfræðinga um aðkomu þeirra að endurskipulagningu hagkerfis þjóðarinnar. Einnig þarf nú strax á meðan úr einhverjum verðmætum er að spila að laða hingað stórar erlendar bankastofnanir. Þetta er kaffispjallið sem nú ríður á.

Væri ekki ráð að forsetaembættið kæmi á fót vinnuhóp sem gengi í þessi mál? Ég er eins og ávallt tilbúinn að leggja mitt af mörkum til aðstoðar að koma á samböndum. Ég er þess fullviss að margir aðrir Íslendingar með alþjóðleg sambönd myndu einnig slást í slíkan hóp sé þess óskað.

Forseti gæti þurft að nota heimildir í lögum að koma á tímabundinni utanþingsstjórn skipaða sérfræðingum til að tryggja að fagleg sjónarmið ráði ferðinni við uppbyggingu í stað flokkadrátta. Enda hlyti að vera léttir fyrir forsætisráðherra og seðlabankastjóra að geta tekið tímabundin frí frá völdum á meðan leyst er úr mestu óreiðunni sem því miður skapaðist í þeirra ráðherratíð. Þeir yrðu meiri menn fyrir vikið.

Að lokum bendi ég á gagnvirka netfundatækni sem ágætt tæki fyrir reglubundna fundi sem leyfir fjölmenna þátttöku almennings að heiman, frá fyrirtækjum eða kaffihúsum. Slíkt gæti verið skilvirkara til umræðna á breiðum grundvelli en einstök kaffiboð valin af handahófi.

Höfundur er athafnamaður.




Skoðun

Sjá meira


×