Innlent

Fórnarlamb handrukkara í Heiðmörk: Var hent úr út bíl á ferð

Úr Heiðmörk
Úr Heiðmörk MYND/ÞÖK

"Þetta voru bara bílaviðskipti sem gengu í gegn fyrir hálfu ári og ég hélt að væru búin," segir fórnarlamb Heiðmerkurhandrukkaranna svokölluðu sem sóttu hann á heimili hans upp úr miðnætti á laugardagskvöld og lömdu hann síðan sundur og saman með þeim afleiðingum að hann þarfnaðist aðhlynningar á sjúkrahúsi.

Fórnarlambið, sem er 31 árs karlmaður, segist ekki hafa átt von á þessu þegar mennirnir bönkuðu upp á hjá honum á laugardagskvöldið. "Þetta er eitthvað svo súrt. Þeir sögðu ekki neitt heldur drösluðu mér upp í bíl og síðan man ég lítið eftir mér. Mér var ábyggilega hent út úr bílnum á ferð og lenti á andlitinu og hliðinni. Miðað við það hversu bólginn ég er í andlitinu þá hljóta þeir að hafa djöflast vel á því," segir fórnarlambið sem rekur þó minni til að þeir hafi potað í augun á honum.

Maðurinn rankaði við sér uppi í Heiðmörk og notaði síðustu kraftana til að leita sér hjálpar. Hann komst með naumindum að Bónus í Garðabænum þar sem hann ræsti öryggiskerfi með því að kasta steini í gegnum glugga. Fljótlega á eftir kom lögreglan sem kallaði á sjúkrabíl. "Þeir tóku af mér símann þannig að ég gat ekki gert neitt annað," segir fórnarlambið.

Fjölskylda hans var erlendis og þakkar hann guði fyrir að þau voru ekki heima þegar handrukkararnir bönkuðu upp á hjá honum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×