Innlent

Megum veiða 3.000 tonn af þorski í Barentshafi

Á grundvelli Smugusamningsins verður íslenskum skipum heimilt að veiða á næsta ári, í rússneskri lögsögu í Barentshafi, 2937 tonn af þorski auk meðafla. Samkvæmt samningnum stendur Íslendingum jafnframt til boða að kaupa 1763 tonn af þorski, ef um semst.

Samstarfsnefnd Íslands og Rússlands um tiltekna þætti sjávarútvegsmála hélt níunda fund sinn í Reykjavík 16.-17. desember sl. Á fundinum skiptust fulltrúar landanna á upplýsingum um framkvæmd samnings frá 15. maí 1999 milli ríkisstjórnar Íslands, Noregs og Rússlands (Smugusamningur) um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs.

Í tilkynningu um málið segir að fjallað var um og farið yfir fjölþætt samstarf ríkjanna á sviði sjávarútvegs svo sem við veiðieftirlit, hafrannsóknir og stjórn veiða úr sameiginlegum stofnum í Norður-Atlantshafi m.a. á karfa, kolmunna, makríl og norsk-íslenskri síld.

Var samhljómur um mikilvægi þess að á næstu misserum yrði unnið markvisst að samkomulagi um stjórnun karfaveiða á Reykjaneshrygg. Þá lýstu fulltrúar landanna ánægju sinni yfir að samkomulag væri um stjórn veiða á norsk-íslenskri síld fyrir árið 2009 sem og fyrir kolmunna og lögðu áherslu á mikilvægi ábyrgrar stjórnunar veiða úr sameiginlegum stofnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×