Innlent

Farþegar í innanlandsflugi yfir milljón 2007

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Fjöldi farþega í innanlandsflugi sem fóru um flugvelli sem reknir eru af Flugstoðum ohf. fór í fyrsta sinn yfir milljón árið 2007. Þarna er um að ræða alla flugvelli aðra en Keflavíkurflugvöll. Að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur, upplýsinga- og kynningarfulltrúa Flugstoða, verður þó að gera þann fyrirvara að allir farþegar eru taldir tvisvar sinnum, við brottför og komu á áfangastað. Því sé í raun um að ræða hálfa milljón farþega.

Eins varð mikil aukning í millilandaflugi um íslenska flugstjórnarsvæðið en fjöldi flugvéla fór í fyrsta sinn yfir 100.000 á árinu. Af þeim voru um 71.000 vélar í yfirflugi og höfðu enga viðdvöl á flugvöllum landsins.

Flugvöllurinn sennilega áfram í Vatnsmýri

Á aðalfundi fyrirtækisins á þriðjudag voru þessar tölur kynntar ásamt öðrum auk þess sem nokkrar breytingar urðu á stjórn þess. Áfram sitja Ólafur Sveinsson stjórnarformaður, Hilmar Baldursson og Arnbjörg Sveinsdóttir en úr stjórn viku Gunnar Finnsson og Sæunn Stefánsdóttir. Í stað þeirra taka Ásgeir Magnússon og Margrét Kristmannsdóttir sæti í stjórn Flugstoða.

Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra, ávarpaði fundinn og ræddi meðal annars um þær breytingar sem áttu sér stað í ársbyrjun 2007 þegar rótgróinni ríkisstofnun, Flugmálastjórn Íslands, var skipt upp í annars vegar stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun og hins vegar þjónustufyrirtæki. Þetta hafi verið í takt við þróunina erlendis og auðveldi fyrirtækinu að skila hlutverki sínu til fulls.

Enn fremur sagði Róbert teikn á lofti um að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram í Vatnsmýrinni og Flugstoðir kæmu til með að gegna lykilhlutverki við að varpa ljósi á þá stefnu sem tekin yrði í málefnum vallarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×