Innlent

Segir borgarlögmann hafa staðfest að brottvikning hafi verið málefnaleg

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri segir það hrein ósannindi að brottvikning Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur sé byggð á ómálefnalegum ástæðum. Borgarlögmaður hafi staðfest það.

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður borgarstjóra, gagnrýndi borgarstjóra harkalega á Vísi og í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær fyrir að víkja henni úr skipulagsráði. Sagði hún borgarstjóra hafa farið illa með vald sitt og að hún muni leita sér lögfræðilegrar ráðgjafar vegna brottvikningunnar. Minnihlutinn í borgarráði gagnrýndi brottvikningu Ólafar jafnframt harkalega og sagði hana fordæmalausa og ómálefnalega.

Borgarstjóri vísar þessum ummælum á bug og segir málflutninginn með ólíkindum. „Þetta eru hrein ósannindi. Ég ekki verið að kúga einn eða neinn eða skerða tjáningarfrelsi eins eða neins. Það liggur alveg fyrir, og ég hef líka álit borgarlögmanns fyrir því, að það lágu mjög skýrar og málefnalegar ástæður fyrir þessari breytingu í skipulagsráði," segir Ólafur.

Þau rök eru samskiptaleysi milli F-listans og Ólafar. Borgarstjóri segir mikilvægt að þeir sem sitja í umboði meirihlutans njóti fullkomins pólitísks trúnaðar. „Þegar hvorki er um samstarf eða samráð að ræða milli fulltrúans og þess framboðs sem hann fulltrúi fyrir þá eru ekki forsendur fyrir því að hann sitji fyrir slíkt framboð í skipulagsráði. Þannig að það voru skýrar og málefnalegar forsendur og allt annað er útúrsnúningur og ósannindi," segir borgarstjóri enn fremur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×