Erlent

Bandaríkjamenn fordæma aðgerðir Rússa

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna.
Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna.

Bandarísk stjórnvöld gagnrýna harðlega árásir Rússa á Georgíumenn, vegna deilna þeirra um Suður - Ossetíu. Bandaríkjastjórn virðist vera tilbúin til að blanda sér í deilu Rússa og Georgíumanna. Í það minnsta sagði Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, í samtali við Mikhail Saakashvili, forseta Georgíu, að nauðsynlegt væri að svara öllu ofbeldi af hálfu Rússa. Þá sagði Cheney að áframhaldandi árásir Rússa á Georgíumenn myndu hafa alvarleg áhrif á samskipti Rússa og Bandaríkjamanna og alþjóðasamfélagið.

Bush Bandaríkjaforseti segist jafnframt hafa lýst yfir miklum áhyggjum sínum af stríði Rússa og Georgíumanna við Vladimir Putin forsætisráðherra Rússlands.

Embættismenn í Hvíta - húsinu neita þó að svara til um hvernig Bandaríkjamenn munu bregðast við hugsanlegu áframhaldi á árásum Rússa á Georgíumenn.

Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakka, er staddur í Georgíu og mun hann ræða við Saakashvili forseta um aðgerðir Evrópusambandsins til að stuðla að friði.

Rússneskar orrustuflugvélar hófu í nótt sókn inn í Georgíu, þrátt fyrir að Georgíumenn segist hafa lagt niður vopn. Tölum um mannfall ber ekki saman, en Rússar segja að 2000 manns hafi fallið í Suður - Ossetíu. Þá er ljóst að tugir þúsunda hafa flúið heimili sín í átökunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×