Innlent

Háskólinn í verulega alvarlegri klemmu

Kristín Ingólfsdóttir rektor stendur frammi fyrir því, við þau kjör sem háskólinn býr nú við, að þurfa annaðhvort að hafna vongóðum umsækjendum eða eiga á hættu að gæði námsins minnki.
Kristín Ingólfsdóttir rektor stendur frammi fyrir því, við þau kjör sem háskólinn býr nú við, að þurfa annaðhvort að hafna vongóðum umsækjendum eða eiga á hættu að gæði námsins minnki.
Háskólaráð fer fram á aukafjárveitingu til Háskóla Íslands (HÍ) vegna niðurskurðar á fjárveitingu til skólans og aukinnar ásóknar nemenda.

Í ályktun ráðsins frá því í fyrradag segir að HÍ hafi brugðist við kalli stjórnvalda um að opna dyr sínar fyrir umsóknum um nám á vormisseri 2009 til þess að bregðast við auknu atvinnuleysi sem hlýst af fjármálakreppunni. HÍ rýmkaði umsóknarfrestinn, opnaði fyrir umsóknir í fögum þar sem venjulega er ekki bætt við nemendum á miðju skólaári og nú hafa alls 1.630 umsóknir borist. Á sama tíma hefur fjárveiting ríkisins til skólans verið skorin niður um tæpan milljarð sem eru tíu prósent af áætlaðri fjárveitingu.

„Við erum í verulega alvarlegri klemmu,“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskólans. „Annars vegar stöndum við frammi fyrir því að þurfa hugsanlega að segja nei við fólk sem er atvinnulaust og gerir verulegar væntingar til þess að komast í háskólanám eða þá að segja já og taka þá áhættu að það bitni á gæðum námsins.“ Spurð hvort HÍ geti leyft sér að minnka kröfur sínar um gæði segir hún, „það kemur hreinlega ekki til greina“.

Dregist hefur að svara umsækjendum vegna þessa en Kristín segist vongóð um að fjárlagafrumvarp liggi fyrir á mánudag en þá kemur háskólaráð saman. Hún segist ekki vilja segja til um það hversu há fjárveitingin þurfi að vera eða hversu mörgum HÍ geti tekið við fáist aukafjárveitingin ekki.- jse



Fleiri fréttir

Sjá meira


×