Innlent

Nauðgunardómur þyngdur - lögregla gagnrýnd fyrir seinagang

Dómur yfir karlmanni sem nauðgaði áfengisdauðri stúlku á heimili fyrrverandi tengdamóður sinnar var þyngdur úr fimmtán mánuðum í átján í Hæstarétti í dag. Maðurinn þarf að greiða konunni 800 þúsund krónur í miskabætur. Lögreglan gagnrýnd fyrir seinagang.

Stúlkan sem maðurinn nauðgaði var tengd honum fjölskylduböndum. Hún var aðframkomin af áfengisdrykkju, ælandi á veitingastað, þegar maðurinn fór með hana heim. Hann neyddi sig inn í hana en hætti samförum þegar móðursystir stúlkunnar hringdi dyrabjöllunni og kom heim.

Daginn eftir vaknaði stúlkan og leitaði sér hjálpar á bráðamóttöku. Maðurinn var handtekinn. Í fyrstu neitaði hann alfarið að hafa sofið hjá stúlkunni en þegar von var á niðurstöðum úr DNA rannsókn frá Noregi breytti hann framburði sínum.

Hæstiréttur segir brot mannsins alvarlegt. Það hafi beinst að persónufrelsi ungrar stúlku sem borið hafi traust til hans vegna fjölskyldutengsla. Lögreglan er einnig gagnrýnd. Hæsturéttur segir:

"Var einnig litið til þess að engin viðhlítandi gögn lágu fyrir um afleiðingar verknaðarins auk þess sem dráttur varð á lögreglurannsókn málsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×