Erlent

Condoleezza Rice í sögulega heimsókn til Lýbíu

Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna mun fara í sögulega opinbera heimsókn til Líbýu á föstudag í boði Muammar Gaddafi leiðtoga landsins.

Þetta verður í fyrsta sinn sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna fer í opinbera heimsókn til Líbýu frá árinu 1953 en samskipti landanna hafa verið vægast sagt stirð á undanförnum áratugum.

Allt fram til ársins 2006 var Líbýa á lista Bandaríkjamanna yfir hryðjuverkaþjóðir en var þá tekin af listanum eftir að Líbýumenn lýstu því yfir að þeir væru hættir framleiðslu gereyðingarvopna og fordæmdu jafnframt starfsemi hryðjuverkasamtaka.

Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska utanríkisráðuneytinu er heimsókn Rice til Líbýu dæmi um að Bandaríkin eigi enga varanlega óvini og sé einnig dæmi um árangur af utanríkismálastefnu Bush forseta.

Einnig er talið að heimsókninni sé ætlað að sýna löndum á borð við Norður-Kóreu og Íran að þau geta haft hagnað af því að sættast við Bandaríkjamenn.

Gaddafi fagnar því að samskiptin landsins við Bandaríkin séu að komast í eðlilegt horf en segir jafnframt að Lýbía fari aðeins fram á að vera látin í friði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×