Erlent

Rannsaka fjöldagrafir frá borgarastríðinu á Spáni

Hafin er umfangsmikil rannsókn á vegum spænskra yfirvalda á örlögum tugþúsunda manna sem hurfu í borgarstríðinu þar á millistríðsárunum og síðar á valdatíma einræðisherrans Francisco Franco.

Dómarinn Baltasar Garzon sem stjórna mun þessari rannsókn hefur farið fram á það við kaþólsku kirkjuna og sveitarstjórnir á Spáni að þessir aðilar sendi honum öll gögn sem þeir hafa um fólk sem hvarf á þessu tímabili.

Talið er að um 30.000 manns liggi í fjöldagröfum víða á Spáni en þetta fólk var myrt í borgarastríðinu og á valdatíma Franco. Markmið rannsóknarinnar er að leiða í ljós hvort hægt sé að sækja til saka þá sem stóðu að þessum fjöldamorðum.

Þegar Spánn losnaði við Franco og hóf umbreytinguna yfir í lýðræði í landinu uppúr 1970 ákváðu stjórnmálaflokkar landsins að draga engan til ábyrgðar fyrir glæpi sem framdir voru í borgarstríðinu í landinu.

Fyrir tíu árum var svo byrjað að grafa upp lík úr þekktum fjöldagröfum til að kryfja þau og bera kennsl á viðkomandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×