Innlent

Samskip sýknað og lögmaður sektaður

Arnarfell, eitt skipa Samskipa.
Arnarfell, eitt skipa Samskipa.

Hæstiréttur snéri á miðvikudag úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í Dísarfellsmálinu svokallaða við. Kona krafðist skaðabóta á hendur Samskipum en eiginmaður hennar lést þegar Dísarfell, skip félagsins, sökk árið 1997. Héraðsdómur dæmdi Samskip til að greiða konunni tæpar tvær milljónir króna í miskabætur en Hæstiréttur sýknaði Samskip af þeirri kröfu á miðvikudag. Þá var lögmaður konunnar dæmdur til að greiða hundrað þúsund krónur í sekt vegna ummæla sem hann lét falla í héraðsdómsstefnu.

Dísarfellið sökk þann 9. mars árið 1997 þegar það var á leið til Færeyja. Tólf skipverjar voru um borð og lentu allir í sjónum með þeim afleiðingum að tveir þeirra létust. Öðrum var bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Konan krafðist bóta frá Samskipum á þeim grundvelli að orsök slyssins mætti rekja til bilunar eða vanbúnaðar skipsins. Hæstiréttur telur, ólíkt héraðsdómi, að konunni hafi ekki tekist að færa sönnur á að svo hafi verið. Þá taldi Hæstiréttu ósannað að mistök eða rangar ákvarðanir skipstjórnenda hafi orsakað slysið. Samskip var því sýknað af kröfu konunnar.

Í héraðsdómsstefnu kom fram í máli lögmanns konunnar að maður hennar og skipsfélagar hans hafi haft mikla vantrú á skipinu og grunað útgerðina um græsku. Þá lét hann að því liggja að Dísarfellið hafi verið „manndrápsfleyta" og að eigendum þess hafi verið það ljóst. Hann benti einnig á að skipið hefði verið vel tryggt og þannig hafi fyrirtækið hagnast á því að skipið fórst. „Þannig hafi líf eiginmanns hennar verið lagt að veði fyrir velferð útgerðarinnar og eigendur skipsins, sem hafi á þessum tíma staðið verulega illa fjárhagslega," sagði lögmaðurinn.

Þessi síðustu orð segir Hæstiréttur vera „sérstaklega vítaverð enda er með þeim gefið í skyn að aðaláfrýjandi hafi framið refsiverðan verknað." Lögmaðurinn var því dæmdur til að greiða hundrað þúsund króna sekt í ríkissjóð.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×