Innlent

Ágúst biðst afsökunar: „Gerðist í hita leiksins“

Ágúst í átökum á Kirkjusandi í gær.
Ágúst í átökum á Kirkjusandi í gær. MYND/Daníel

Ágúst Fylkisson, maðurinn sem réðst á lögregluþjón við Kirkjusand í gær, biðst afsökunar á hátterni sínu. Í samtali við Vísi segist hann sjá eftir atvikinu en bendir á að aðdragandinn að því að upp úr sauð hafi verið lengri en fram hafi komið í fréttum. Hann ætlar að senda frá sér tilkynningu um atvikið á morgun.

„Ég biðst afsökunar á þessu en vill ekki ræða það nánar að svo stöddu," sagði Ágúst Fylkisson í samtali við Vísi. „Þetta gerðist í hita leiksins en aðdragandinn var lengri þótt það hafi ekki komið fram á myndunum, það var ýmislegt búið að ganga á," segir Ágúst en myndir af árásinni voru birtar í fréttum sjónvarps og á Vísi í gær.

„Það kemur tilkynning frá mér um þetta mál á morgun og ég vil ekki ræða það nánar að svo stöddu," sagði Ágúst. Hann segist ekki hafa heyrt frá lögreglunni eftir að honum var sleppt úr haldi en heimildir Vísis herma að líklegast verði hann ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og líkamsárás.

Fyrir slík brot gæti hann átt yfir höfði sér allt að átta ára fangelsisvist, en í almennum hegningarlögum segir í 106 grein:

„Hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Ef brot samkvæmt þessari málsgrein beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, má beita fangelsi allt að 8 árum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×