Innlent

Lægstbjóðandi uppfyllti ekki kröfur Vegagerðar

Björn Gíslason skrifar
MYND/Vilhelm

Vegagerðin hefur ákveðið að ganga til samninga við Ístak um að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar á kaflanum frá Strandarheiði til Njarðvíkur. Gengið er til samninga á grundvelli tilboðs Ístaks frá 8. apríl en þá voru tilboð vegna verksins opnuð. Tilboð Ístaks hljóðaði upp á 807 milljónir króna.

Ístak átti ekki lægsta tilboðið heldur fyrirtækin Adakris og Toppverktakar. Þau buðu 698 milljónir króna í verkið en áætlaður verkkostnaður var 770 milljónir. Segir í tilkynningu Vegagerðarinnar að eftir að tilboðin höfðu verið yfirfarin og leiðrétt eftir því sem við átti kom í ljós að Adakris og Toppverktakar uppfylltu ekki kröfur Vegagerðarinnar og því ekki unnt að semja við þau.

Sem fyrr segir er um að ræða verklok á Reykjanesbraut en fyrri verktaki, Jarðvélar, sagði sig frá verkinu undir lok síðasta árs og var lýst gjaldþrota fyrr á þessu ári. Reiknað er með að brautin verði umferðarfær um miðjan október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×