Innlent

Vistvænn lífsstíll Reykvíkinga kannaður

Borgarráð fól í dag umhverfis- og samgönguráði að láta framkvæma könnun á viðhorfi borgarbúa til umhverfismála. „Við viljum kanna hvað Reykvíkingar vilja gera næst í umhverfismálum og hvað hver og einn vill leggja að mörkum," segir Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.

Borgarráð vill láta kanna viðhorf borgarbúa til vistvæns lífsstíls en það er þema Dags umhverfisins og viðfangsefni sýningar sem stendur yfir í Perlunni. Niðurstaða viðhorfskönnunar til umhverfismála á að vera Reykjavíkurborg leiðarljós Grænu skrefanna sem næst verða stígin að mati Gísla Marteins. „Við viljum vita hvar Reykvíkingar vilja gera betur í umhverfismálum, upplýsingar sem könnunin veitir verða notaðar til að gera borgina ennþá grænni," segir hann.

Í samþykkt borgarráðs í dag stendur að Reykjavíkurborg leggi áherslu á fræðslu, opna umræðu og samráð um umhverfismál. „Öðruvísi getur borgin ekki virkjað íbúa sína til þátttöku í umhverfismálum. Án þátttöku borgarbúa getur Reykjavíkurborg ekki viðhaldið þeim umhverfisgæðum sem við búum við í dag. Reykjavíkurborg þarf að stuðla að því að borgarbúar taki tillit til umhverfisins í daglegri hegðun sinni. Með þetta að markmiði hefur Reykjavíkurborg látið verkin tala í gegnum Grænu skrefin þar sem námsmönnum hefur verið gefið frítt í strætó, visthæfir bílar hafa fengið ókeypis í bílastæði, þjónusta við endurvinnslu úrgangs hefur verið bætt o.fl. "




Fleiri fréttir

Sjá meira


×