Innlent

Þiggur ekki sæti í stjórn Landsvirkjunar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Björgólfur Thorsteinsson.
Björgólfur Thorsteinsson.

Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar, tekur ekki sæti varamanns í stjórn Landsvirkjunar en í það sæti var hann skipaður á aðalfundi Landsvirkjunar 18. apríl síðastliðinn.

„Það má segja að mjög skiptar skoðanir hafi verið um þetta mál og ég sá mitt tækifæri í þessu en komst að þeirri niðurstöðu að menn væru ekki alveg tilbúnir fyrir þetta skref. Vissulega eru þarna tækifæri til að hafa áhrif á stefnu fyrirtækisins en það er líka þetta sjónarmið með ímyndina út á við. Sumir líta þannig á að maður sé kominn of nálægt þeim aðila sem maður er stundum að reyna að sveigja í aðrar áttir," sagði Björgólfur í samtali við Vísi.

„Þetta hefur hleypt mikilli umræðu af stað um þessi mál, hvaða leiðir eru farnar að markmiðum og hvort seta í stjórnum stórfyrirtækja sé leyfð. Ég sé mér ekki fært að þiggja þetta á þessum tímapunkti en maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér," sagði Björgólfur enn fremur.

Í fréttatilkynningu sem Björgólfur sendi frá sér fyrr í kvöld segist hann telja mikilvægt að stjórn Landverndar sé samstillt um mikilvæg mál sem þetta. Honum sé kappsmál að halda þeim góða starfsanda sem verið hafi innan samtakanna og sé ákvörðun hans tekin í ljósi þess. Hann segir hugmyndina þó hafa verið athyglisverða og erlendis séu víða fordæmi fyrir því að formenn eða framkvæmdastjórar umhverfisverndarsamtaka sitji í stjórnum stórfyrirtækja.


Tengdar fréttir

Vill að formaður Landverndar víki vegna setu í stjórn Landsvirkjunar

Prófessor við Háskólann á Akureyri krefst þess að formaður Landverndar segi af sér þar sem hann er orðinn varamaður í stjórn Landsvirkjunar. Hann segir náttúruverndarsinnum brugðið og það rýri traust Landverndar að formaður samtakanna sitji beggja megin borðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×