Innlent

Rotþró stolið við sumarbústað í Grímsnesi

Frá Grímsnesi.
Frá Grímsnesi. MYND/GVA

Nokkrar annir voru hjá lögreglunni á Selfossi vegna innbrota og þjófnaða í liðinni viku. Rotþró var meðal þess sem þjófar höfðu á brott með sér.

Tvívegis hefur verið brotist inn í Gaulverjabæjarskóla í Flóa. Í fyrra skiptið var það á tímabilinu 18. til 20. apríl og þá var stolið tveimur Philips-hátölurum og magnara. Aðfaranótt sumardagsins fyrsta var aftur brotist inn í skólann og þá stolið Dell-fartölvu og tveimur geislaspilurum.

Enn fremur var svartri rotþró stolið frá sumarbústað í byggingu við Ásabraut í landi Ásgarðs í Grímsnesi. Síðast var vitað af rotþrónni síðdegis sunnudaginn 20. apríl en þegar eigandi kom að bústaðnum að morgni fyrsta sumardags var hún horfin. Greinileg ummerki voru eftir mjóa hjólbarða þar sem rotþróin hafði staðið og eru þau talin tengjast hvarfinu.

Vegna þessara mála biður lögregla alla þá sem einhverjar upplýsingar geta veitt um óeðlilegar mannaferðir í ofangreindum tilvikum að hafa samband í síma 480-1010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×