Innlent

Gasópið heitasti hringitónninn

Viðvörunaröskur lögreglumanna um gasúðun er án efa heitasti hringitónn landsins enda hafa hátt í þrjú þúsund manns hlaðið honum niður af Netinu undanfarna þrjá daga. Það má í raun segja að eitt helsta tískuorð dagsins í dag sé gas.

Og fyrirmyndin er að sjálfsögðu aðgerðir lögreglu í óeirðunum við Rauðavatn í síðustu viku og netheimur fylgist að sjálfsögðu vel með. Bloggarar landsins hafa gert sér mat úr málinu eins og þeim einum er lagið og eru skiptar skoðanir um aðgerðir lögreglu.

Þá hefur vöðvabúntið fræga í teknóbandinu Mercedes Club, Gasman, dregist inn í umræðuna nafns síns vegna.

Og Listamenn þjóðarinnar sækja sér innblástur í stóra gasmálið því í morgun gáfu rappararnir í XXX Rottweilerhundum út lagið Reykjavík Belfast. Erpur Eyvindarson, einn meðlima hljómsveitarinnar, segir lagið ádeilu á viðbrögð lögreglu gegn mótmælum undanfarinna ára og nefnir þar aðgerðirnar gegn meðlimum Falun Gong og Saving Iceland. Nú hafi keyrt um þverbak og ástandið í Reykjavík minni einna helst á Belfast á árum áður. Það sætti Íslendingar sig ekki við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×