Innlent

Kennarar með laun á við aðra í sambærilegum störfum

Samningar hafa náðst um nýjan kjarasamning milli Félags grunnskólakennara og Launanefndar sveitarfélaga. Skrifað var undir samninginn klukkan hálftvö í Karphúsinu í dag en hann felur í sér að laun kennara verði sambærileg við aðra háskólamenntaða starfsmenn sem sinna sambærilegum störfum. Þessari jöfnun verður náð í þremur áföngum.

Þann 1. júní munu laun kennara hækka um 25 þúsund krónur á mánuði og við upphaf næsta skólaárs bætast níu þúsund krónur inn í launatöflu. Þann fyrsta október hækka síðan öll starfsheiti um einn launaflokk.

Þessar þrjár hækkanir fyrir þá sem ekki hafa notið yfirborgana nema samtals um 15-23% á grunnlaun eftir aldurshópum að því er fram kemur í tilkynningu. „Þann 1. janúar 2009 hækka laun síðan um 2,5%," segir ennfremur.

Á þessu ári má vænta að launakostnaður sveitarfélaga vegna þessa samnings hækki um 1,2 milljarða króna. Samningurinn gildir til eins árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×