Innlent

Stjórnarflokkar þurfi að semja upp á nýtt ef ganga á í ESB

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að ef ganga eigi í ESB þurfi stjórnarflokkarnir að gera nýjan stjórnarsáttmála og Sjálfstæðisflokkurinn að skipta um skoðun og það sé ekki meiningin. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar, þingflokksformanns Frjálslynda flokksins.

 

Kristinn sagði mikla umræðu hafa verið um Evrópumál eftir að Fréttablaðið hefði birt nýja könnun um stuðning við aðildarviðræður. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefði lýst því yfir að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu en formaður Samfylkingarinnar vildi ekki útiloka það.

Spurði Kristinn hver afstaða ríkisstjórnarinnar væri í málinu, hvort hún myndi undirbúa umsókn að ESB á þessu kjörtímabili eða hvort það væri útilokað. Þá spurði hann enn fremur út í orð formanns Samfylkingarinnar um að allir væri til í þá vinnu að breyta stjórnarskránni á þann veg að unnt yrði að framselja dómsvald, framkvæmdavald og og löggjafarvald til ESB til þess að undirbúa aðild að sambandinu. Spurði hann ráðherra hvort ríkisstjórnin myndi beita sér fyrir því að að breyta stjórnarskránni á kjörtímabilinu.

 

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði enga afstöðu hafa verið tekna til þess hvort breyta ætti stjórnarskránni en það yrði ekki gert fyrr en í lok kjörtímabils ef breytingar yrðu lagðar til. Hvað varðaði Evrópusambandið þá væru stjórnarflokkarnir með ólíka stefnu í þeim málaflokki og hvorugur hefði samið um að breyta afstöðu sinni þegar stjórnarsáttmálinn hefði verið gerður. Það segði ekkert í sáttmálanum um að það ætti að ganga í Evrópusambandið en hins vegar ætti að setja á fót sérstaka nefnd til þess að fylgjast með þróun Evrópumála.

 

Forsætisráðherra sagði enn fremur að það stæði í sjálfu sér ekki í sáttmálanum að það ætti ekki að ganga í ESB en til þess að það myndi gerast þyrftu stjórnarflokkarnir að semja upp á nýtt og sjálfstæðismenn að skipta um skoðun og það væri ekki meiningin.

 

Kristinn þakkaði skýr svör ráðherra og sagði að það lægi þá ljóst fyrir að ríkisstjórnin myndi ekki hefja undirbúning að umsókn um aðild að Evrópusambandinu eða sækja um aðild á kjörtímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×